Nám og þjálfun í almennum bóklegum greinum hefst nú í byrjun október - komdu og vertu með í skemmtilegum námshópi í Farskólanum í vetur.

Þetta er tækifærið fyrir þá sem til dæmis þurfa að klára bóklegu greinarnar til að ljúka iðnámi sínu. Þetta er líka tækifæri fyrir þá sem hafa gaman af því að læra og vilja bæta við sig þekkingu.

Samkvæmt samningi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins býður Farskólinn fullorðnu fólki sem ekki hefur lokið framhaldsskóla upp á námsleiðina „Nám og þjálfun í almennum bóklegum greinum“. Námsleiðin er fjármögnuð af Fræðslusjóði á móti nemendagjöldum.

Lýsing og markmið:

Byrjaðir þú í framhaldsskóla en kláraðir ekki? Fórstu snemma út á vinnumarkaðinn? Hefur þú starfað lengi í ákveðinni iðngrein og vilt ná þér í starfsréttindi? Ef þú svarar játandi þá er „Nám og þjálfun  í almennum bóklegum greinum“ fyrir þig.  Lögð er áhersla á fjölbreyttar kennsluaðferðir og einstaklingsmiðað nám.

Helstu námsgreinar eru: Íslenska, danska, enska, stærðfræði, sjálfsstyrking og námstækni.

 Að loknu námskeiði:

hefur þú lært fyrstu áfanganaí  íslensku, ensku, dönsku og stærðfræði á framhaldsskólastigi.

hefur þú öðlast meira sjálfstraust í námi.

hefur þú þjálfað sjálfstæði í námi.

hefur þú þjálfað leikni þína í tölvunotkun og upplýsingaleit.

hefur þú styrkt stöðu þína á vinnumarkaði.

 Sjá nánar á heimasíðu Farskólans og á frae.is/namsskrar/almennar-boklegar-greinar/

Staðsetning: Á Norðurlandi vestra þar sem áhugi er fyrir hendi. Hægt er að kenna í fjarmenntabúnaði ef hópurinn er dreifður.

Fjöldi: Gert er ráð fyrir 12 þátttakendum.

 Hvenær: Á haust- og vorönn 2013.

Forkröfur: Að þú sért orðinn 23 ára,hafir lokið grunnskóla eða Grunnmenntaskólanum.

 Mat á námi: Enginn formleg próf eru tekin en verkefni eru unnin, bæði í tímum og heima og eru þau metin af leiðbeinendum. Gerð er krafa um 80 % mætingu í hvern námsþátt.

Til athugunar: Kennt er samkvæmt námsskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Mennta– og menningamálaráðuneytið hefur samþykkt að meta megi námið til allt að 24 eininga á framhaldsskólastigi. Fræðslumiðstöðin niðurgreiðir námið. Námsmenn geta sótt um fræðslustyrk hjá sínu stéttarfélagi ef þeir eiga rétt á því.

Útskriftarhópur úr Námi og þjálfun vorið 2012