Farskólinn - miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra útskrifar átta svæðisleiðsögumenn

Tveggja anna námi, í samstarfi við Menntaskólann í Kópavogi lokið

Svæðisleiðsögunám hófst hjá Farskólanum í janúar 2017. Ellefu námsmenn hófu námið en átta luku því nú í desember síðastliðnum. Formleg útskrift fór fram 12. janúar 2018 frá Gauksmýri í Húnaþingi vestra.

Verkefnastjóri námsins var Kristín Einarsdóttir, en hún hefur sjálf lokið námi í svæðisleiðsögn ásamt því að starfa innan ferðaþjónustunnar.

SSNV - samstök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra styrktu námið og skipti sá stuðningur sköpum fyrir verkefnið. Menntaskólinn í Kópavogi veitti faglegan stuðning og reynslumiklir leiðbeinendur komu víða að.

Farskólinn þakkar öllum samstarfsaðilum gott samstarf á meðan á verkefninu stóð og óskar nýjum svæðisleiðsögumönnum og konum til hamingju með áfangann og góðs gengis í framtíðinni.

Neðsta röð frá vinstri: Kristín Lundberg og Sarah Holzem. Næsta röð: Dagný Sigmarsdóttir og Khatarina Ruppel. Næsta röð: Sigrún Sigurðardóttir og Eydís Magnúsdóttir. Efsta röð: Bryndís Þráinsdóttir, Jón Ólafur, Ólafur Bernódusson og Kristín Einarsdóttir, verkefnastjóri.