Fræðslustjóri að láni í Húnaþingi vestra

Sveitarfélagið ræðst í markvissa uppbyggingu mannauðs - símenntun og starfsþróun fer í ákveðinn farveg.

Sveitarfélagið Húnaþing vestra hefur ákveðið að ráðast í markvissa uppbyggingu mannauðs.
Gerður hefur verið samningur á milli Sveitamenntar, Mannauðssjóðs Kjalar, Farskólans og Húnaþings vestra  um að gerð verði þarfagreining á fræðsluþörfum meðal almenns starfsfólks hjá sveitarfélaginu. Markmið sveitarfélagsins með vinnunni er að koma símenntun og starfsþórun starfsmanna í ákveðinn farveg, auka starfsánægju og bæta þjónustu. 
Um er að ræða sérstakt verkefni sem kallast „Fræðslustjóri að láni“ og hefur staðið stofnunum og fyrirtækjum til boða af hálfu starfsmenntasjóða um nokkurra ára skeið. Verkefnið fellst í því að utanaðkomandi ráðgjafi gerir þarfagreiningu á fræðsluþörfum meðal starfsmanna og skilar, að greiningu lokinni, fræðsluáætlun til stjórnenda. Starfsmönnum bjóðast einnig viðtöl við náms- og starfsráðgjafa. 
Starfsmenntasjóðurinn Sveitamennt greiðir allan kostnað við verkefnið og hefur ráðið Farskólann miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra til að sjá um þarfagreininguna. Verkefnið er hafið og er gert ráð fyrir að því ljúki í lok maí.
Á myndinni má sjá Guðnýju Hrund Karlsdóttur, sveitarstjóra og Bryndís Þráinsdóttur, framkvæmdastjóra undirrita samning um verkefnið.

Frá undirritun samnings um Fræðslustjóra að láni.