Fræðsluverkefninu Eflum Byggð slitið í Húnaþingi vestra - 7% íbúa tóku þátt í verkefninu

Samtals voru haldin 13 námskeið í verkefninu. Tölvunámskeiðin voru vinsælust.

Á stjórnarfundi Farskólans – miðstöðvar símenntunar á Norðurlandi vestra þann 2. desember árið 2010 var samþykkt að koma á fót fræðsluverkefni í Húnaþingi vestra. Fræðsluverkefnið sótti fyrirmynd sína til tveggja eldri verkefna hjá Farskólanum sem haldin voru á Hofsósi annars vegar og Blönduósi og Skagaströnd hins vegar. Ákveðið var að námið yrði frítt fyrir námsmenn.

Hesltu markmið verkefnisins voru:

 

  • Að auka starfshæfni íbúanna með því að skapa jákvætt andrúmsloft í samfélaginu gagnvart breytingum og þróun í atvinnulífinu.
  • Að skapa jákvætt andrúmsloft gagnvart fræðslu í samfélaginu, skapa námssamfélag (á ensku: Learning Community).
  • Að auka námsgæði og aðgang að áframhaldandi menntun í samfélaginu.
  •  Að auka sjálfstraust námsmanna.
  • Að námsmenn læri að læra, efli sjálfstraust sitt og lífsleikni.

 

Eflum Byggð hófst formlega í byrjun janúar 2011. Virki – Þekkingarsetur á Hvammstanga og Farskólinn gerðu með sér samning til tveggja ára þess efnis að Helga Hinriksdóttir, starfsmaður Virkis, sinnti starfi verkefnastjóra í Eflum Byggð.

Í janúar 2011 var haldinn íbúafundur þar sem rúmlega 50 manns mættu. Á þeim fundi var fræðsluverkefnið kynnt og fræðsluþarfir greindar hjá hópnum.

Aðsókn í upplýsingatækni fór fram úr björtustu vonum svo ákveðið var að námshóparnir yrðu þrír á önn árið 2011 en tveir árið 2012. Ákveðið var að hafa hópana litla eða í kringum 12 námsmenn í hverjum hópi til að auka gæði námsins.

Í Eflum Byggð voru námsmenn samtals 134 í þrettán námshópum. Kennslustundir voru 496 og nemendastundir voru 5158  en nemendastundir eru fundnar með því að margfalda saman fjölda kennslustunda með fjölda námsmanna í hverjum hópi fyrir sig og síðan eru tölurnar lagðar saman.

Þátttakendur á öllum námskeiðum sem í boði voru í Eflum Byggð voru 134; 96 konur og 38 karlmenn. Þegar búið er að taka tillit til þeirra sem sóttu fleiri en einn námskeið voru þátttak­endur samtals 83. Það eru tæp 7% af íbúafjölda Húnaþings vestra.

Farskólinn þakkar íbúum gott samstarf í verkefninu. 

Hluti hópsins sem tók þátt í Frumkvöðlasmiðjunni í Eflum Byggð.

Myndin sýnir niðurstöður úr þarfagreiningu.

Myndin sýnir tölfræðiupplýsingar um námsmenn í Eflum Byggð í Húnaþingi vestra.