Fréttir af námskeiðum í Farskólanum

Félagsliðabrú og leikskóla- og stuðningsfulltrúabrú hafnar ásamt Grunnmenntaskólanum, en hann er hluti af Fisktækninámi. Framundan eru námskeið í víravirki og postulínsmálun. Nánari fréttir...

Leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú hófst í lok ágúst. Hér er um tveggja ára nám að ræða og er seinna árið hafið. Umsjónarmaður námsins hjá Farskólanum er Jóhann Ingólfsson.

Nám á félagsliðabrú hófst 12. september. Fjórtán námskonur eru skráðar í námið og koma þær frá Sauðárkróki, Blönduósi, Skagaströnd og Hvammstanga. Umsjónarmaður námsins er Sandra Hilmarsdóttir.

Grunnmenntaskólinn hófst 12. september. Grunnmenntaskólinn er hluti af Fisktæknináminu. Þetta er í annað sinn sem Farskólinn, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, Fisktækniskóli Íslands og FISK seafood hf. eru í samstarfi um að koma fisktækninámi af stað. Námsmenn koma frá FISK og Dögun, rækjuvinnslu. Umsjónarmaður Grunnmenntaskólans er Halldór Gunnlaugsson. 

Helgina 1. og 2. október verður haldið námskeið í smíði víravirkis. Júlía Þrastardóttir, gullsmíðameistari frá Akureyri mun leiðbeina. Hópur er kominn í Skagafirði og verið er að finna tímasetningu fyrir hóp á Skagaströnd. Gígja Símonardóttir hefur haft veg og vanda að allri skipulagningu námskeiðsins.

Námskeið í postulínsmálningu verður haldið á Hofsósi helgina 8. og 9. október. Þátttaka er góð. Leiðbeinandi er Fanney Gísladóttir úr Reykjavík.

Íslenskunámskeið fara af stað í byrjun októbermánaðar. Jóhann Ingólfsson er verkefnastjóri íslenskunámskeiðanna. Að minnsta kosti þrjú námskeið verða haldin fyrir áramótin.

Fræðsluáætlun haustannar fyrir Heilbrigðisstofnun Norðurlands er nú tilbúin. Farskólinn tekur þátt í því að skipuleggja námskeiðin ásamt tveimur öðrum símenntunarmiðstöðvum; SÍMEY á Akureyri og Þekkingarneti Þingeyinga. Halldór Gunnlaugsson hefur borið hitann og þungann af skipulagningsvinnu vegna námskeiðanna fyrir hönd Farskólans.

Námskeið fyrir fatlað fólk fara af stað í október. Fyrsta námskeiðið verður í trésmíði. Umsjónarmaður námskeiða fyrir Fjölmennt er Sandra Hilmarsdóttir.

Fleiri námskeið eru í pípunum og má þar nefna námskeið um "þunglyndi og kvíða". Það námskeið verður haldið helgina 30. september og 1. október á Sauðárkróki. Stuðst verður við fjarfundabúnað þar sem hópar verða á Blönduósi og Hvammstanga. Leiðbeinandi er Salbjörg Bjarnadóttir, geðhjúkrunarfræðingur. Námskeiðið er opið öllum.

Síminn hjá Farskólanum er 455 - 6010.