Fréttir úr starfi Farskólans - minnum á ókeypis náms- og starfsráðgjöf

Nokkur námskeið í íslensku fyrir útlendinga verða haldin nú á haustönn um allt svæðið okkar.

Námskeið í íslensku eru hafin á Hvammstanga og Blönduósi. Hér er um námskeið fyrir Sýrlendinga að ræða. Námskeiðin eru 120 kest að lengd. Á Hvammstanga kennir Sigrún Þórisdóttir hópnum en Sigrún er sérkennari og náms- og starfsráðgjafi. Á Blönduósi gekk illa að fá leiðbeinanda og því kemur hann úr Skagafirði. Kristín Einarsdóttir, grunnskólakennari og leiðsögumaður tók að sér að kenna hópnum. Bæði námskeiðin munu ná fram yfir áramótin.

Fleiri íslenskunámskeið eru að fara af stað. Meðal annars eitt námskeið fyrir Pólverja á Blönduósi. Það námskeið hefst eftir sláturtíð og búið er að tryggja leiðbeinanda fyrir það.

Lokið er tveimur námskeiðum í úrbeiningu. Fleiri námskeið, ætluð bændum og öðrum áhugasömum, eru í bígerð. Sjá námsvísi 2019. Þessi námskeið eru haldin í samstarfi við BioPol á Hvammstanga og SSNV.

Góður hópur er að læra til stuðningsfulltrúa og leikskólaliða, allt konur. Þær mæta í námsverin einu sinni til tvisvar í viku og ljúka sínu námi vorið 2020.

Við hvetjum alla til að fylgjast með námskeiðahaldi hér á heimasíðunni undir flipanum ,,námskeið" og eins á Facebook og í námsvísi haustannar.

Ráðgjafi Farskólans kemur til starfa 14. október eftir barneignarleyfi. Hún tekur á móti fólki í viðtöl og aðstoðar við ýmsa hluti, eins og að skoða nám, gera ferilmöppu og ferilskrá og fleira. Þessi þjónusta er ókeypis.

Sími Farskólans er: 455 - 6010.

Frá raunfærnimati í hestamennsku vorið 2019