Fréttir af starfi Farskólans - námskeið á næstunni

Skrifstofuskólanum lýkur um miðjan október. Fisktækninámið er að hefjast aftur. Nám fyrir leikskólaliða og stuðningsfulltrúa hafið. Félagsmálanámskeið fyrir konur verður haldið í lok október í Farskólanum.

Skrifstofuskólanum lýkur um miðjan október. Jóhann Ingólfsson hefur stýrt Skrifstofuskólanum.

Fisktækninámið hefst aftur í Farskólanum um miðjan októbermánuð. Tvær bóklegar greinar verða kenndar; enska og íslenska. Þorsteinn Hjaltason mun kenna ensku og Arnfríður Arnardóttir mun kenna íslenskuna. Halldór Gunnlaugsson hefur umsjón með Fisktæknináminu fyrir hönd Farskólans.

Nám fyrir leikskólaliða og stuðningsfulltrúa hófst í byrjun september. Raunfærnimat hefur staðið yfir hjá þeim hópi sem sækir námið og eru 29 þátttakendur skráðir í raunfærnimatið. Búið er að meta samtals 237 framhaldsskólaeiningar hjá hópnum í Skagafirði og gert er ráð fyrir að 162 einingar verði metnar hjá þeim sem búa í Húnavatnssýslum. Jóhann Ingólfsson hefur umsjón með náminu sem standa mun yfir í tvö ár.

Félagsmálanámskeið fyrir konur verður haldið 30. og  31. október næstkomandi. Námskeiðið er sérsniðið fyrir konur sem sinna félagsstörfum innan Samtaka Skagfirskra kvenna. Námskeiðið verður einnig opið öðrum áhugasömum konum sem sinna félagsstörfum eða hafa hug á því að gera það. Námskeiðið verður haldið í Farskólanum við Faxatorg. Fyrri daginn stendur námskeiðið frá klukkan 18:00 - 22:00 og seinni daginn frá klukkan 10:00 - 16:00. Léttur hádegismatur er innifalinn í verði ásamt kaffi.

Framundan eru nokkur tómstundanámskeið meðal annars orkering, pylsugerð, prentun á púða, skiltagerð og fleira.

Hægt er að skrá sig á námskeið á heimasíðu Farskólans og í síma: 455 - 6010. Við minnum á að Farskólinn er á Facebook.