Kynningarfundur í Farskólanum um raunfærnimat. Viltu láta meta þekkingu þína og færni sem þú hefur öðlast í starfi og frítíma?

Hefur þú starfað við iðngrein án þess að hafa lokið sveinsprófi. Raunfærnimat getur mögulega stytt skólagöngu þína. Lestu meira...

Kynningarfundur um raunfærnimat í Farskólanum við Faxatorg mánudaginn 14. apríl klukkan 17:00. Allir velkomnir.

Hvað er raunfærnimat? 

Á heimasíðu Iðunnar má lesa eftirfarandi:

Raunfærni er sú færni og þekking sem einstaklingur hefur í raun. Hann hefur náð færninni með ýmsum hætti til dæmis starfsreynslu, starfsnámi, frístundum, námi, félagsstörfum og fjölskyldulífi. Þetta getur verið bæði formlegt nám sem fer fram innan skólakerfisins og óformlegt nám sem fer fram utan skólakerfisins. 

Raunfærnimat er mat á þeirri raunfærni sem viðkomandi hefur og er mikil hvatning til náms fyrir einstaklinga á vinnumarkaðanum og gefur þeim tækifæri á að ljúka námi sínu.

Raunfærnimat er unnið í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og er gengið út frá að eðlilegt sé að meta færni sem til staðar er óháð því hvernig hennar hefur verið aflað. Mat á raunfærni byggir á þeirri hugmynd að nám sé verðmætt og að það sé skjalfest óháð því hvar þess hefur verið aflað. Inntökuskilyrði í raunfærnimat er 25 ára lífaldur og 60 mánaða starf í faginu (staðfest með opinberum gögnum).