Nám í Fisktækni formlega hafið á Sauðárkróki - um 20 starfsmenn FISK setjast á skólabekk

Samstarf Farskólans, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Fisktækniskólans og FISK seafood hf.

Nám í fisktækni er formlega hafið á Sauðárkróki. Að skipulagi og framkvæmd námsins koma Farskólinn, Fjölbrautaskólinn, Fisktækniskólinn í Grindavík ásamt FISK seafood hf. 

Síðastliðið vor fóru sautján starfsmenn FISK í raunfærnimat á móti námskrá í Fisktækni. Nú sest hópurinn á skólabekk til að klára það sem upp á vantar. Námið er tveggja ára nám með vinnu.

Námið er skipulagt þannig að bóklegar greinar eru kenndar í Farskólanum. Aðrar námsgreinar skipuleggur Fjölbrautaskólinn og kennir. Einhverjir munu fara í fjarnám í stökum áföngum hjá Fisktækniskólanum með staðnáminu.

Hér er um tilraunaverkefni að ræða þar sem tvö skólastig vinna saman, það er að segja framhaldsskólastigið og framhaldsfræðslustigið ásamt atvinnulífinu.

Námið tengist einnig "Tilraunaverkefni um hækkað menntunarstig í Norðvesturkjördæmi" sem lesa má nánar um í fyrri fréttum Farskólans.

Verkefnastjórar námsins eru Halldór Gunnlaugsson hjá Farskólanum og Margrét Hallsdóttir hjá FNV.

Hér er hópurinn saman kominn ásamt framkvæmdastjóra FISk seafood hf., Jóni Eðvald Friðrikssyni, Ingileif Oddsdóttur, skólameistara FNV og Bryndísi Þráinsdóttur, frá Farskólanum.