Námsmaður í Farskólanum hlýtur viðurkenningu sem ,,fyrirmynd í námi fullorðinna 2013"

Haraldur Ingólfsson, starfsmaður á Vélaverkstæðis KS, hlaut viðurkenningu á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins

Í tengslum við ársfund Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins í desember ár hvert eru fyrirmyndir í námi fullorðinna heiðraðar. Í þetta sinn voru þrír einstaklingar heiðraðir: Haraldur Ingólfsson, námsmaður í Farskólanum, Andri Steinn Birgisson fyrrverandi námsmaður hjá Mími - símenntun og Guðrún Fjóla Kristjánsdóttir sem stundaði nám hjá Fræðslunetinu - símenntun á Suðurlandi. Þetta er í annað sinn sem námsmaður úr Farskólanum hlýtur þennan heiður. Öll þrjú hafa haldið áfram í námi í framhaldsskóla eða háskóla eftir nám sitt hjá fræðslu- og símenntunarmiðstöðvunum.

Leiðir Haraldar Ingólfssonar og Farskólans lágu saman haustið 2007 þegar starfsfólk Farskólans heimsótti Vélaverkstæði KS á Sauðárkróki í Viku símenntunar. Það skólaár skráði Haraldur sig í eina af vottuðum námsleiðum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins; Aftur í nám. 

Í Viku símenntunar haustið 2009 lágu leiðir Haraldar og Farskólans aftur saman og í kjölfarið hóf hann nám í ,,Nám og þjálfun í almennum bóklegum greinum", en í þeirri námsleið eru kenndar eftirfarandi námsgreinar: íslenska, enska, danska og stærðfræði. Haraldur útskrifaðist frá Farskólanum snemma vors 2011.

Á sama tíma og Haraldur var í námi hjá Farskólanum stundaði hann nám við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra í vélvirkjun, sem hann hefur lokið og vélstjórn til B réttinda.

Haraldur hefur einnig tekið þátt í tveimur stærðfræðiáföngum ásamt fleiri fullorðnum námsmönnum. Sá fyrri var kenndur í Farskólanum vorið 2013 og sá seinni í Fjölbrautaskólanum nú í haust.

Haraldur er vel að viðurkenningunni kominn. Farskólinn óskar Haraldi til hamingju með viðurkenninguna og er hún Farskólanum mikil hvatning í því mikilvæga starfi að bjóða fullorðnu fólki á Norðurlandi vestra upp á nám og námsumhverfi við hæfi.

 

 

 

 

Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins ásamt Haraldi Jóhanni Ingólfssyni.

Haraldur Ingólfsson sagði frá skólagöngu sinni á ársfundinum.

Starfsfólk Farskólans ásamt Haraldi. Frá vinstri: Aðalheiður Reynisdóttir, Haraldur, Bryndís Þráinsdóttir og Jóhann Ingólfsson.

Guðrún Eyjólfsdóttir, formaður stjórnar FA ásamt verðlaunahöfum og Ingibjörgu Elsu Guðmundsdóttur.