Námsmenn Farskólans í Grunnmenntaskólanum, sem er hluti af Fisktækninámi, fengu viðurkenningu sem fyrirmynd í námi fullorðinna árið 2015

Fisktækninámið er samstarfsverkefni Farskólans, Fjölbrautaskólans, Fisktækniskóla Íslands og FISK seafood hf

Þegar Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (www.frae.is )leitaði til fræðslu- og símenntunarmiðstöðvanna eftir tilnefningum til ,,Fyrirmyndar í námi fullorðinna 2015" ákvað starfsfólk Farskólans að tilnefna heilan námshóp sem fyrirmynd. Það hefur aldrei verið gert áður. Fræðslumiðstöðin ákvað að veita hópnum viðurkenningu ásamt tveimur öðrum einstaklingum, sem voru tilnefndir af SÍMEY - símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar og Iðunni - fræðslusetri.

Námið í Fisktækni hófst  haustið 2014. Að skipulagi og framkvæmd námsins koma Farskólinn, Fjölbrautaskólinn, Fisktækniskólinn í Grindavík ásamt FISK seafood hf. 

Vorið 2014 luku sautján starfsmenn FISK raunfærnimat á móti námskrá í Fisktækni og í kjölfarið hófu 21 manns nám í Fisktækni.

Námið er skipulagt þannig að bóklegar greinar eru kenndar í Farskólanum og falla þær inn í ramma Grunnmenntaskólans.  Grunnmenntaskólinn er ein af vottuðum námsleiðum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og niðurgreiðir Fræðslusjóður þann hluta námsins, Fræðslusjóðurinn Landsmennt greiðir það sem upp á vantar eða hluta námsmanna. Aðrar námsgreinar skipulagði Fjölbrautaskólinn og kenndi. Nokkrir námsmenn fóru í fjarnám í stökum áföngum hjá Fisktækniskólanum með staðnáminu.

Hér er um tilraunaverkefni að ræða þar sem tvö skólastig vinna saman, það er að segja framhaldsskólastigið og framhaldsfræðslustigið ásamt atvinnulífinu.

Námið tengist einnig tilraunaverkefninu ,,Menntun núna í Norðvesturkjördæmi" sem lesa má nánar um í fyrri fréttum Farskólans, en það verkefni veitti styrk til námsins, sem rann til FNV.

Verkefnastjórar fisktækninámsins eru Halldór Gunnlaugsson hjá Farskólanum og Margrét Hallsdóttir hjá FNV.

Vorið 2016 útskrifast hópurinn sem Fisktæknar frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.

Frá vinstri: Bryndís, framkvæmdastjóri Farskólans, Halldór, verkefnastjóri námsins, Ásgerður Tryggvadóttir og Ágúst Marínósson, námsmenn og fulltrúar Fisktæknihópsins, Nanna Bára Maríasdóttir, sviðsstjóri hjá Fisktækniskóla Íslands, Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólameistari Fisktækniskólans og Þorkell Þorsteinsson, aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.

Frá vinstri: Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Dragan Pavlica sem lauk raunfærnimati og námi í málaraiðn tilnefndur af SÍMEY, Ágúst og Ásgerður frá Fisktæknihópnum en þau luku raunfærnimati í Fisktækni vorið 2014 og eru í námi, Kristján Jónsson, sem lauk raunfærnimati og námi í málun, tilnefndur af Iðunni Fræðslusetri og Sólveig B. Gunnarsdóttir, formaður stjórnar Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.

Ágúst flytur erindi sitt.