Námsvísir Farskólans á leiðinni í öll hús á Norðurlandi vestra.

Áherslan er á starfstengd námskeið vorið 2015 ásamt raunfærnimati og náms- og starfsráðgjöf. Blaðið kemur í hús vikuna 19. - 23. janúar næstkomandi.

... að læra að læra á fullorðinsaldri ...

Farskólinn óskar öllum gleðilegs nýs árs.

Það má skipta Námsvísi Farskólans vorið 2015 í tvennt. Annars vegar í starfstengd námskeið og hins vegar í tómstundanámskeið. Áhersla Farskólans er, sem fyrr, á starfstengd námskeið. Í þessu blaði er boðið upp á fimm vottaðar námsleiðir, fyrir fullorðið fólk sem ekki hefur lokið framhaldsskóla. Allar eru námsleiðirnar samþykktar af mennta- og menningarmálaráðu­neytinu og gefa framhaldsskólaeiningar. Þeir sem sækja ofangreindar námsleiðir eru ekki eingöngu að mennta sig í ákveðnu viðfangsefni heldur einnig að auka sjálfstraust sitt og „að læra að læra“. Það er ánægjuleg staðreynd að margir kjósa að halda áfram í skóla að loknum námsleiðunum og þeir skrá sig gjarnan til áframhaldandi náms í framhaldsskóla.

Í nýju blaði kemur Farskólinn einnig til móts við þann hóp sem starfar innan ferðaþjónustunnar á svæðinu eða þeirra sem hafa áhuga á að hasla sér þar völl. Fjögur námskeið  eru sérstaklega merkt frumkvöðlum og ferðaþjónustuaðilum og eru þau styrkt sérstaklega af tilraunaverkefninu „Menntun núna í Norðvesturkjördæmi“ og því á mjög hagstæðu verði fyrir þátttakendur. Námskeiðsröðin verður í boði á þessu á þessu ári. Gert er ráð fyrir að námskeiðin verði kennd á öllu Norðurlandi vestra eða í Húnaþingi vestra, í Austur Húnavatnssýslu og í Skagafirði. Nú er um að gera að skrá sig sem fyrst því gert er ráð fyrir takmörkuðum fjölda á hverja námskeiðsröð.

Áfram mun Farskólinn hvetja fullorðna til að kanna stöðu sína varðandi raunfærnimat en Haukur Harðarson frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins fræðir þig nánar um raunfærnimat í blaðinu.

Ekki má gleyma þeim sem óska eftir því að komast á tómstundanámskeið af ýmsum toga. Í þessu blaði má finna námskeið sem tengjast handverki, vellíðan, hundum, ljósmyndum, heilsu og fleiru. Ef þú lumar á góðri hugmynd að nýjum námskeiðum þá endilega gaukaðu henni að okkur í Farskólanum. Við reynum að koma henni „á koppinn“.

Í lok janúar lýkur tilraunaverkefninu „Menntun núna í Norðvesturkjördæmi“ sem stýrt er af Háskólanum á Bifröst. Samstarfsaðilar eru meðal annars fræðslu- og símenntunarmiðstöðvarnar þrjár í kjördæminu. Nánar verður fjallað um verkefnið síðar á vettvangi Farskólans.

Ég hvet þig til að nýta þér þjónustu Farskólans, hvort sem þú gerir það með því að fara á námskeið; í náms- og starfsráðgjöf sem er þér að kostnaðarlausu eða í raunfærnimat. Okkar hlutverk er að veita þér góða þjónustu. Við hlökkum til að sjá þig í Farskólanum á vorönn 2015.

Fyrir hönd starfsfólks Farskólans.

 

Bryndís Þráinsdóttir

Framkvæmdastjóri.