Prófatími er að hefjast í Farskólanum og öllum námsverum - prófareglur eru skýrar og um þær má lesa nánar í fréttinni

Samtals voru tekin 451 háskólapróf árið 2018 í námsverum og námsstofum á Norðurlandi vestra.

Eftirfarandi reglur gilda meðal annars um prófatökur háskólanema.

 

Almennar reglur

 

 • Þú þarft að mæta til prófs að lágmarki fimm mínútum áður en það hefst
 • Ef þú mætir meira en klukkustund eftir að próf hefst færð þú ekki að taka prófið
 • Þú verður að hafa með sér skilríki með mynd og láta það liggja á borðinu þínu í prófi
 • Yfirhafnir, töskur, símar og annar búnaður sem tilheyrir ekki leyfilegum hjálpargögnum skal geyma utan við prófstofu eða hjá prófverði. Þetta á líka við um heyrnartól og snjallúr.
 • Pennaveski skal geyma undir borði
 • Bannað er að valda truflun í prófstofu
 • Bannað er að neita matar og tóbaks í prófi (drykkir eru leyfðir)

 

Viðvera nemenda í prófi

 

 • Þú mátt ekki yfirgefa próf fyrsta klukkutímann
 • Þú mátt aðeins standa upp frá prófi til að fara á snyrtingu í fylgd með prófverði
 • Þú mátt ekki skila úrlausnum fyrr en klukkustund eftir að próftími hefst
 • Ef þú lýkur prófi áður en próftíma er lokið skaltu fara út úr prófstofunni og gæta þess að trufla ekki þá sem eru enn í prófinu

 

Próftími (Með próftíma er átt við þann tíma sem þú hefur til þess að leysa prófið).

 • Prófstjóri getur breytt próftíma ef ófyrirsjáanleg truflun verður á framkvæmd prófsins
 • Prófstjóri á að tilkynna nemendum samstundis ef breyting verður próftímanum
 • Það er ekki hægt að breyta próftíma eftir að hann hefst nema að umsjónarkennari óski eftir því og þá þarf samþykki prófstjóra fyrir því
 • Þegar próftíma lýkur átt þú að skila úrlausnum þegar í stað

 

Skil á úrlausnum

 • Þú skilar öllum úrlausnum (prófspurningum og rissblöðum) í skriflegum prófum merktum með nafni og kennitölu til prófgæslumanns að loknu prófi
 • Í prófum sem unnin eru í tölvu þarftu að fá prófvörð til þín sem staðfestir að þú ljúkir við rafræna prófið (hann horfir á þegar þú smellir á „lokið“)
 • Ef notað er skólanúmer þá á að setja það á úrlausnarblöð (prófspurningar og rissblöð) í stað nafns
 • Í samsettum prófum átt þú að svara hverjum prófhluta á sérstöku blaði

 

 Brot á námsmatsreglum

 • Ef nemandi er grunaður um að hafa rangt við í prófi er prófverkefnið og úrlausnin gerð upptæk og nemanda vísað úr prófinu
 • Rektor tekur ákvörðun um viðurlög um meint brot og eftir atvikum í samráði við siðanefnd háskólans

 

Formlegt fjarnám á háskólastigi, í tengslum við Farskólann, hófst á Norðurlandi vestra haustið 2002. Frá þeim tíma hafa verið starfrækt námsver og námsstofur á fjórum stöðum á Norðurlandi vestra. Í námsverunum hafa háskólanemar ágætis aðstöðu til náms.

Flestir háskólanemar í fjarnámi búa í Skagafirði. Árið 2018 voru tekin samtals 451 háskólapróf (391 háskólapróf árið 2017) í námsverunum. Ekki var haldin skráning yfir allar prófatökur á árinu. Sem dæmi um próf sem ekki voru skráð eru svokölluð heimapróf háskólanema sem ekki krefjast yfirsetu. Framhaldsskólanemar í fjarnámi, tóku sín próf í námsverunum nema þeir sem eiga heima í Skagafirði. Þeir tóku sín próf í FNV.

Fjöldi prófa árið 2018 skiptist þannig á milli námsvera  á Norðurlandi vestra:

Hvammstangi: 64 próf.

Blönduós: 91 próf.

Skagaströnd: 17 próf.

Sauðárkrókur: 279 próf.

Háskólanemi lætur fara vel um sig við prófalestur.