Sautján starfsmenn FISK Seafood hf ljúka raunfærnimati á móti námskrá í Fisktækni

Nám í Fisktækni hefst í september 2014 í samstarfi Farskólans, FNV og Fisktækniskóla Íslands

Miðvikudaginn 25. júní lauk viðamiklu raunfærnimatsverkefni hjá Farskólanum. Verkefnið er unnið í tengslum við ,,Tilraunaverkefni um hækkað menntunarstig í Norðvesturkjördæmi" og er samstarfsverkefni FISK seafood hf, Farskólans, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Fistækniskólans í Grindavík og fleiri símenntunarmiðstöðva á Norðurlandi vestra.

Raunfærnimat gengur út á að staðfesta og meta raunverulega færni fólks í skilgreindum verkum eða námsefni án tillits til þess hvernig eða hvar fólk hefur náð færninni. Raunfærni er samanlögð færni sem fólk hefur náð til dæmis með starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, skólanámi, félagsstörfum og fjölskyldulífi.

Hjá FISK seafood hf fóru 17 starfsmenn í raunfærnimat og var metið á móti námskrá í Fisktækni en það nám hefst haustið 2014 í samstarfi FNV og Farskólans og fleiri aðila.

Aðalheiður Reynisdóttir, náms- og starfsráðgjafi hjá Farskólanum, hefur séð um allan undirbúning vegna raunfærnimatsins og tekið viðtöl við starfsmenn FISK. Matsaðilar komu frá Fisktækniskólanum.

Hörður Ríkharðsson, verkefnastjóri í ,,Stóra Norðvesturverkefninu" hjá Farskólanum vann að því að leiða samstarfsaðila saman í þessu viðamikla raunfærnimatsverkefni.

Hópurinn saman kominn fyrir utan FISK Seafood á Sauðárkróki.