Spennandi ráðstefna um íslenskukennslu fyrir fólk af erlendu bergi brotið á vegum ,,Menntun núna í Norðvesturkjördæmi"

Á dagskránni verður meðal annars fjallað um árangursríkar kennsluaðferðir

Á vef Háskólans á Bifröst má lesa eftirfarandi:

Íslenskunám og fjölmenningarsamfélagið er viðfangsefni tveggja ráðstefna sem haldnar verða á vegum tilraunaverkefna um menntun í Norðvesturkjördæmi og í Breiðholti. Fyrri ráðstefnan fer fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði miðvikudaginn 8. október og sú síðari í Gerðubergi í Breiðholti 10. okt.

 Áhersla verður á íslenskunám og ólíkar kennsluaðferðir sem þróaðar hafa verið á undanförnum árum. Sagt verður m.a. frá reynslu af íslenskukennslu í gegnum leiklist og frá starfstengdum íslenskunámskeiðum á vinnustöðum. Áhrifaríkar aðferðir verða einnig kynntar til að efla þátttöku innflytjenda í samfélaginu, s.s. með aðkomu bókasafna og leikskóla. Nýleg stefnumótun Innflytjendaráðs verður kynnt til sögunnar og sagt frá reynslu fólks frá fyrstu hendi af því að flytja til landsins.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra munu flytja erindi á ráðstefnunum auk fulltrúa fræðsluaðila, Innflytjendaráðs,  Fjölmenningaráðs Reykjavíkurborgar, sveitarfélaga og Borgarbókasafns, sjá nánar meðfylgjandi dagskrá.

Vilhjálmur Egilsson verður ráðstefnustjóri á ráðstefnunni á Ísafirði.

Ráðstefnurnar eru öllum opnar og fer skráning fram með því að senda tölvupóst á menntun.nuna@bifrost.is.