Upplýsingar um skólastarf hjá Farskólanum í ljósi COVID-19

Almannavarnir hafa lýst yfir neyðarstigi vegna COVID-19. Farskólinn fylgir tilmælum almannavarna hvað varðar viðbrögð.

Skólastarf meðan á neyðarstigi almannavarna stendur

Í Farskólanum er unnið að því að tryggja að starfsemi skólans geti haldið áfram eins og kostur er. Farskólinn vinnur eftir þeim skyldum sem fræðsluaðilar hafa á neyðarstigi almannavarna. Sjá landsáætlun sóttvarnarlæknis og ríkislögreglustjóra hér. Þar segir meðal annars:

  • Skólar munu halda uppi starfsemi eins lengi og unnt er.
  • Markmið er að starfsmenn skóla haldi áfram störfum þó nemendur eða starfsfólk sé sent heim vegna sóttvarnarráðstafana.
  • Skipuleggja hlutverk kennara í fjarkennslu og heimanámi.
  • Skrá sérstaklega fjarvistir nemenda og starfsmanna vegna viðkomandi veikinda.
  • Hugað verði að því að nemendum í brotthvarfshættu bjóðist stuðningur námsráðgjafa þar sem því verður við komið.

Farskólinn vinnur samkvæmt viðbragðsáætlun

Skólahald heldur áfram

Unnið er að því að nýta fjarskiptatækni eða tölvuna við nám, kennslu, ráðgjöf og raunfærnimat til að tryggja áframhaldandi skólastarf. Verkefnastjórar og kennarar munu upplýsa námsmenn um stöðu mála. 

Tilkynna um smit, sóttkví og flensueinkenni

Brýnt er fyrir starfsfólki, kennurum og námsmönnum að tilkynna til öryggisvarðar Farskólans, Bryndísar Þráinsdóttur, bryndis@remove-this.farskolinn.is ef einhver innan Farskólans greinist með COVID-19 og/eða þarf að fara í sóttkví. Þeir einstaklingar sem finna fyrir flensueinkennum eru vinsamlegast beðnir um að koma ekki inn í húsnæði Farskólans vegna smithættu og hafa samband við sína heilsugæslu ef þeir finna fyrir flensueinkennum sem lýst er á vef landlæknis. 

Áhersla á varnir gegn smiti

Farskólinn minnir á mikilvægi smitvarna og þær ráðstafanir sem búið er að gera í húsnæði Farskólans varðandi fjölgun sprittstöðva og upplýsinga á veggspjöldum. 

Farskólinn hvetur alla til að fylgjast vel með framgangi mála í fréttum. Nýjar upplýsingar sem hafa áhrif á skólastarf Farskólans verða birtar hér á heimasíðu og á samfélagsmiðlum.

https://www.landlaeknir.is/koronaveira/