Farskólinn – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra, hefur að undangengnu útboði félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins tekið að sér að skipuleggja og kenna sjö námskeið í tæknilæsi fyrir þá sem eru orðnir 60 ára.
Hvert námskeið verður samtals átta klukkustundir að lengd, kennt í fjögur skipti á einni til tveimur vikum. Lögð verður áhersla á einstaklingsmiðaða kennslu og jákvæða upplifun þátttakenda og því verða ekki fleiri en átta í hverjum námshópi. Námskeiðin eru ókeypis fyrir þátttakendur.
Námskeiðin verða haldin á Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd, Húnvatnshreppi, Sauðárkróki, Varmahlíð og Hofsósi.
Auk almennrar tölvunotkunar verður notkun snjalltækja kennd (sími og spjaldtölva), rafræn skilríki og notkun þeirra, rafræn samskipti (tölvupóstur og notkun annarra samskiptamiðla), netverslun, notkun heimabanka og fleira.
Námskeiðin verða kennd í maí og september og þau verða auglýst með góðum fyrirvara.
Við í Farskólanum hlökkum til að takast á við þetta spennandi verkefni.