Skagafjörður – Jafnréttismál í stjórnun, stefnumótun og opinberri stjórnsýslu á sveitarstjórnarstiginu

Námskeiðið er aðeins fyrir stjórnendur Sveitarfélagsins Skagafjarðar og er hluti af fræðsluáætlun sveitarfélagsins.

Lýsing: Á námskeiði Jafnréttisstofu verður fjallað um skyldur sveitarfélaga í jafnréttismálum með áherslu á stjórnun, stefnumótun og þjónustu á hinum ýmsu sviðum. Einnig verður farið yfir stöðu jafnréttismála á sveitarstjórnarstiginu, jafnréttislöggjöfina og áhrif kynjaðra staðalmynda á framgang og stöðu jafnréttismála.
Samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 ber öllum fyrirtækjum og stofnunum þar sem starfa 25 starfsmenn eða fleiri að setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu. Lögin gera ráð fyrir að jafnréttisstarf í sveitarfélögum sé tvíþætt og eiga jafnréttisáætlanir því bæði að snúa að réttindum starfsfólks og þeirri þjónustu sem sveitarfélagið veitir.
Á námskeiðinu verður sérstaklega fjallað um aðferðafræði kynjasamþættingar og hvernig hún getur verið nothæf til að bæta þjónustu sveitarfélaga og stofnana þeirra. Kynnt eru grundvallaratriði kynjasamþættingar og dæmi tekin til að varpa ljósi á hvernig má stuðla auknum gæðum í þjónustu og öðrum starfsháttum með jafnrétti að leiðarljósi. Mat á stöðu jafnréttismála er mjög mikilvægt og því verður einnig fjallað um leiðir við jafnréttismat.
Þátttakendur á námskeiðinu vinna fjölbreytt verkefni sem snúa að staðalmyndum, áætlanagerð og kynjasamþættingu

Markmið: Aukin gæði í stjórnsýslu til eflingar kynjajafnréttis og réttlátri dreifingu opinberra gæða
Hæfniviðmið.

Að loknu námskeiði eiga þátttakendur að geta:

  • beitt kynjafræðilegum hugtökum og þekkingu í stjórnun og við stefnumótun.
  • framkvæmt jafnréttismat á fyrirhuguðum aðgerðum/framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins.
  • útbúið aðgerðaáætlun fyrir sína vinnustaði.
  • undirbúið kynjasamþættingarverkefni á sínu sviði/stofnun/vinnustað.

Leiðbeinandi: Sérfræðingur frá Jafnréttisstofu

Hvar og hvenær: Námskeiðið verður haldið í fjarfundi. 29. október 2020 kl 10:00 – 16:00

Lengd: 6 klst