Starfsmannasamtöl – Stjórnendur Skagafjarðar

Þetta námskeið er ætlað starfsfólki Skagafjarðar

Fjöldi íslenskra vinnustaða heldur starfsmannasamtöl, þ.e. að stjórnandi og starfsmaður setjist niður og ræði frammistöðu beggja. En þá eru rædd m.a. upplifun starfsmannsins í vinnunni, starfsánægja, stjórnun, starfið sjálft, samskipti og líðan á vinnustað, markmið og annað sem stjórnandi og starfsmaður telja að þurfi að ræða.

Starfsmannasamtal á að vera uppbyggilegt og opinskátt samtal. Í samtalinu gefst tækifæri á að bæta hlutina, skilgreina markmið starfsmannsins, ræða starfsframa og aukna ábyrgð og þörf starfsmannsins fyrir starfsþróun og fræðslu. Gildi starfsmannasamtala er ótvírætt en það er eins og með margt annað, það er ekki sama hvernig þau eru framkvæmd.

Með starfsmannasamtali verður til staður og stund þar sem stjórnandi og starfsmaður setjast niður og ræða með skipulögðum hætti um verkefni starfsmannsins, verksvið og ábyrgð ásamt umbótum. Það er mjög gagnlegt fyrir stjórnanda að setjast niður með starfsmanni einu sinni á ári til að ræða frammistöðu í víðu samhengi. Til þess gefst ekki tími í dagsins önn. Í samtalinu skapast möguleiki til að draga fram hindranir í starfi sem ekki hefur gefist umræðugrundvöllur fyrir.

Starfsmannasamtal gerir stjórnandanum kleift að vinna með starfsmönnum sínum að betri árangri með því að veita þeim heiðarlega endurgjöf og hvatningu og vinna sameiginlega að mikilvægum umbótum. Í starfsmannasamtali er ekki eingöngu litið til baka heldur líka fram á veginn. Sé starfsmannasamtal framkvæmt á faglegan hátt mun það bæta sambandið milli stjórnanda og starfsmannsins.

Meðal þess sem er tekið fyrir:

Ástæður og framkvæmd starfsmannasamtala

Að ræða við starfsmenn um frammistöðu

Það sem ber að varast í starfsmannasamtölum

Að veita uppbyggilega endurgjöf á frammistöðu

Samtalstækni

Ávinningur:

Aukinn árangur í starfsmannasamtölum

Meiri færni í samtalstækni

Aukin færni í að veita endurgjöf á frammistöðu

Meira öryggi í framkvæmd starfsmannasamtala

Leiðbeinandi: Ingrid Kuhlman, þjálfari og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun ehf.

Hvar og hvenær: 11. mars. 13:00-15:00.