Árangursrík teymi verða til þegar einstaklingar með ólíka styrkleika, reynslu og hæfileika vinna saman að sameiginlegum markmiðum. Á þessu námskeiði skoðum við hvað einkennir vel samsett teymi og hvers vegna fjölbreytileiki í hlutverkum, hugsun og aðferðum er lykill að árangri.
Þátttakendur fá innsýn í mismunandi teymismódel og aðferðafræði sem styðja við árangursríka samvinnu og læra hvernig þau geta nýtt styrkleika hvers teymismeðlims til að hámarka frammistöðu heildarinnar. Við förum yfir verkfæri sem varpa ljósi á persónulega eiginleika teymismeðlima ásamt því að við skoðum tilhneigingu okkar til að velja teymismeðlimi sem líkjast okkur sjálfum – og hvernig við getum brotið upp þessar venjur til að byggja upp öflugri teymi.
Á námskeiðinu verður einnig fjallað um ágreining í teymum, hvað skilur heilbrigðan ágreining frá óheilbrigðum, hvenær er ágreiningur uppbyggilegur og hvenær þarf að stíga inn til að tryggja áframhaldandi árangur og traust.
Námskeiðið er blanda af erindum og æfingum og hentar stjórnendum, verkefnastjórum og öðrum sem leiða teymi eða starfa í teymisumhverfi og vilja bæta hæfni sína í að greina styrkleika, virkja fjölbreytileika og skapa forsendur fyrir árangursríka samvinnu.
Kennari: Trausti Björgvinsson AATV vottaður teymisþjálfi
Hvar og hvenær: 6. nóvember 10-14 SÍMEY Þórsstíg 4