Haustið 2022 gerði Farskólinn samstarfssamning við SÍMEY – símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar um náms- og starfsráðgjöf í Farskólanum á meðan leitað er að nýjum ráðgjafa. SÍMEY hefur áralanga reynslu í því að bjóða upp á náms- og starfsráðgjöf til fullorðinna.

Samkvæmt samningi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins býður Farskólinn fullorðnu fólki sem ekki hefur lokið framhaldsskóla upp á náms- og starfsráðgjöf, þeim að kostnaðarlausu. Ráðgjöfin er fjármögnuð af Fræðslusjóði.

Náms– og starfsráðgjafi veitir fólki á öllum aldri ráðgjöf og upplýsingar til að auðvelda ákvarðanatöku vegna náms- og starfsvals. Einnig aðstoðar hann einstaklinga við að takast á við ýmis verkefni sem tengjast námi og starfsþróun. Náms- og starfsráðgjafi veitir m.a. upplýsingar um nám og störf og aðstoðar við að finna námsleiðir og starfsvettvang við hæfi. Í starfi sínu hefur náms- og starfsráðgjafi það að meginmarkmiði að stuðla að velferð einstaklinga. 

Hvers vegna náms- og starfsráðgjöf?
Í dag eru gerðar kröfur um að starfsmenn búi yfir góðri og fjölbreyttri kunnáttu. Því skiptir máli að hver einstaklingur leiti leiða til að bæta við sig þekkingu og auka færni sína. Þannig styrkir hann stöðu sína í starfi og á vinnumarkaði. Það eykur ánægju og styrkir sjálfsmyndina að fást við það sem hver og einn hefur áhuga á.

Vandi margra sem vilja auka menntun sína er að velja nám sem hentar og gera áætlun um fyrstu skref. Þá geta þættir eins og tímaskortur eða vandi tengdur lestri eða ritun verið hindrun í að taka ákvörðun um nám.

Með því að ræða við náms- og starfsráðgjafa gefst tækifæri til að skoða og meta eigin stöðu, til dæmis áhuga og hæfni, átta sig á hvaða möguleikar eru í boði og gera áætlun um hvert skal stefna. Góð hvatning getur skipt sköpum þegar hefjast skal handa við ný verkefni.