Símenntun og starfsþróun starfsmanna
Samkvæmt samningi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins býður Farskólinn fullorðnu fólki sem ekki hefur lokið framhaldsskóla upp á náms- og starfsráðgjöf, þeim að kostnaðarlausu. Ráðgjöfin er fjármögnuð af Fræðslusjóði.
Farskólinn – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra býður upp á heimsókn náms- og starfsráðgjafa á vinnustaði. Tilgangur ráðgjafar á vinnustöðum er að hvetja starfsmenn til virkrar símenntunar og aðstoða þá sem vilja auka menntun sína við að skoða mögulegar námsleiðir til að auðvelda ákvarðanatöku um nám eða frekari starfsþróun.
Náms- og starfsráðgjöf á vinnustað er byggð á samningi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) við símenntunarmiðstöðvar um land allt um framkvæmd verkefnis sem hlotið hefur titilinn Þitt val – þín leið. Kynningarbækling um verkefnið náms- og starfsráðgjöf á vinnustöðum má sækja hér á síðunni og einnig grein um verkefnið í ársriti FA.
Með því að fá náms- og starfsráðgjafa í heimsókn á vinnustað geta fyrirtæki stuðlað að frekari símenntun starfsmanna, aukinni starfsánægju og árangursríkri starfsþróun.
Þátttaka í verkefninu er starfsmönnum og fyrirtækjum að kostnaðarlausu.
Framkvæmd
Algengast er að náms- og starfsráðgjafi komi í heimsókn á vinnustað og haldi stutta kynningu um gildi símenntunar og útskýrir í hverju aðstoð hans felst. Í mörgum tilvikum kemur einnig fulltrúi frá fræðslu- eða starfsmenntasjóði stéttarfélags og kynnir möguleika á styrkjum til náms.
Þá er starfsmönnum, sem þess óska, boðið að skrá sig í einstaklingsviðtal hjá náms- og starfsráðgjafa. Viðtölin fara ýmist fram á vinnustaðnum nokkrum dögum síðar eða í húsnæði Farskólans. Samráð um viðtalstíma er haft við stjórnendur eða annan tengilið.
Áhugasamir hafi samband við Farskólann í síma 455-6010 eða á netfangið farskolinn@farskolinn.is