HSN – Geðheilbrigði á vinnustað

Þetta námskeið er aðeins ætlað starfsfólki Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN).

Markmið með vinnustofunni er að vekja þátttakendur til vitundar um mikilvægi þess að stuðla að opinskárri umræðu um geðheilbrigði á vinnustað um leið og þátttakendur frá yfirgripsmikla fræðslu um leiðir til að hlúa að eigin geð- og svefnheilsu með aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar.  

Vinnustofa 1 – 2 klst. staðlota á Akureyri 

Í tveggja klukkustunda vinnustofu fá þátttakendur ítarlega fræðslu og hvatt verður til umræðna um mikilvægi þess að stuðla að opinskárri umræðu um geðheilbrigði á vinnustað. Farið er yfir helstu áskoranir sem starfsfólk fyrirtækja og stofnana stendur frammi fyrir þegar kemur að eigin geðheilbrigði og okkar samstarfsfólks. Borin eru kennsl á helstu atriði í stjórnun og vinnufyrirkomulagi sem líkleg eru til að draga úr eða efla geðheilsu starfsfólks og um ábyrgð fyrirtækja, stjórnenda og starfsfólksins sjálfs í að hlúa að geðheilbrigði á vinnustað.  

Fjallað verður um geðheilsu og mikilvægi góðrar geðheilsu fyrir líðan og frammistöðu í starfi þar sem ítarlega er farið yfir helstu einkenni geðvanda sem starfsfólk getur fundið fyrir sem og möguleg áhrif slíks vanda á frammistöðu, líðan og starfsánægju. Þátttakendur læra að bera kennsl á þessi einkenni og hvenær og hvernig er rétt að grípa inn í áður en vandi verður að krísu.  

Að lokum eru kynntar þær leiðir HAM sem sýnt hefur verið fram á að skili árangri í að hlúa að eigin geðheilsu og þeirra sem í kringum okkur eru og bæta líðan starfsfólks í leik og starfi. Í þessu samhengi verður kynnt til sögunnar aðferð Mental sem við köllum „Mín eigin uppskrift  

að góðri geðheilsu“. Þátttakendur fá leiðbeiningar og vinna að því í smærri hópum að útbúa sína eigin uppskrift að góðri geðheilsu. Að lokum er farið yfir aðferðir markmiðssetningar til að virkja uppskriftina til að bæta líðan og fá þátttakendur þá áskorun að virkja uppskriftina fram að næstu lotu.  

Vinnustofan fer fram í bland sem fræðsla, umræða í smærri hópum og eigin vinnu þátttakenda.  

Vinnustofa – Fjarkennsla – 1 klst  

Í fyrstu lotu fjarkennslu er staðan tekin á þátttakendum og rætt verður hvernig þeim hefur gengið að vinna með sína uppskrift að góðri geðheilsu og fjallað um leiðir til að tryggja uppskriftin og aðferðir hennar nýtist þeim.  

Aðalumfjöllunarefni fyrri lotu fjarkennslu verður fræðsla um svefn og svefnvanda. Fjallað verður um einkenni og orsakir svefnleysis og aðferðir HAM til lausnar á svefnvanda en HAM er árangursríkasta meðferðarform við svefnvanda sem völ er á.  

Að lokum verður þátttakendum gefið það verkefni að halda svefndagbók fram að seinni lotu í fjarkennslu í því skyni að bera kennsl á helstu þætti sem líklegir eru til að grafa undan þeirra eigin svefnrútínu. Einnig verður skorað á þátttakendur að nýta nýfengin ráð til að breyta svefnhegðun og hugarfari í átt að bættum svefni.  

Vinnustofa – Fjarkennsla – 1 klst  

Í seinni lotu fjarkennslu verður fyrri hlutanum varið í að fara yfir svefndagbækur og fjallað enn ítarlegra en áður um þá þætti sem líklegir eru til að grafa undan góðum svefni.  

Að auki fer fram ítarleg fræðsla um þá þætti í hugarfari, lífsstíl og svefnvenjum sem iðulega grafa undan góðum svefni og fjallað um fleiri áhrifaríkar leiðir til að ná fram breytingum á svefnrútínu og rjúfa svefnvanda.  

Að lokum verður farið vel yfir það sem fjallað hefur verið um í fræðsluhlutum vinnustofanna, um einkenni geðvanda og mikilvægi þess að hlúa að sér, um uppskriftina að eigin geðheilsu og mikilvægi svefnrútínu. Hvatt verður til umræðu um hvernig þátttakendum hefur gengið að nýta sér þau ráð sem þeim hafa verið færð og um leiðir til að tryggja að þátttakendur nái þeim árangri að nýta sér ráðin í átt að bættri líðan og betri svefni og svefnrútínu.  

Leiðbeinandi:Helena Jónsdóttir og Hilja, frá MENTAL ráðgjöf ehf

Hvar og hvenær:

  • Vinnustofa staðkennd á Akureyri 23. janúar frá kl. 10.00-12.00
  • Í framhaldinu verða tvær fjarkenndar vinnustofur.