Háskólanám gerir aðrar kröfur um vinnubrögð en nemendur hafa átt að venjast á fyrri skólastigum. Auknar kröfur eru gerðar til sjálfsnáms og sjálfstæðis í vinnubrögðum og kröfur um vinnuframlag eru meiri.
Náms- og starfsráðgjafi býður nemendum upp á ýmiss konar ráðgjöf og aðstoð við nám. Markmiðið er að aðstoða nemendur við að bæta vinnubrögð sín og námstækni og má þar nefna tímastjórnun, lestraraðferðir, glósutækni og prófundirbúning.
Einnig aðstoðar náms- og starfsráðgjafi nemendur við að kljást við aðstæður og málefni sem geta haft áhrif á námsgetu og námsframvindu. Má í því sambandi nefna prófkvíða, frestun og sértæka námsörðugleika. Náms- og starfsráðgjafi aðstoðar nemendur við að meta styrk sinn í námi og leiðbeina um aðferðir sem geta aukið færni þeirra.