Frá árinu 2002 hefur Farskólinn ásamt sveitarfélögum á Norðurlandi vestra veitt háskólum á Íslandi þjónustu í formi aðstöðu fyrir fjarnemendur til náms og prófatöku. Frá þeim tíma hafa verið starfrækt námsver og námsstofur á fjórum stöðum á Norðurlandi vestra.
Í námsverunum hafa háskólanemar ágætis aðstöðu til að stunda nám sitt, ef þeir kjósa svo og þar geta þeir tekið sín próf. Nú er prófatörnin á fullu í Farskólanum. Frá miðjum apríl og fram til loka maí og frá miðjum nóvember til miðs desember ár hvert koma háskólanemar í námsverin á Norðurlandi vestra og taka sín próf. Þeir sem ekki teljast formlegir fjarnemar þurfa samþykki frá sínum skóla til að taka prófin á heimaslóðum.
Um síðustu áramót var sú ákvörðun tekin í Farskólanum að framhaldsskólanemar í fjarnámi væru einnig velkomnir til að taka próf í námsverunum.
Miklar breytingar urðu á framkvæmd háskólaprófa árið 2020 í heimsfaraldi Covid og fjölgaði heimaprófum mjög. Rafrænum prófum í námsverum fjölgaði einnig mikið. Þrátt fyrir það þarf að skipuleggja yfirsetu. Ef próf eru tekin á gamla mátann; á pappír, þarf að sækja prófin inn á örugg rafræn svæði háskólanna, prenta þau út og leggja fyrir nemendur. Að loknum prófum eru úrlausnir skannaðar inn til tímabundinnar varðveislu og síðan eru þær sendar með landpósti til viðkomandi skóla. Ef háskólanemendur taka próf í tölvunni sinni, en í námsveri, er stuðst við forritið Inspera við prófatökuna. Nemendur sjá sjálfir um að koma forritinu fyrir í sínum tölvum. Yfirsetumaður tekur manntal og þarf síðan að fylgjast með þegar háskólanemi skráir sig úr prófinu og skanna nafna- og mætingalista til viðkomandi háskóla.
Farskólinn starfar eftir ákveðnum reglum og vinnulagi sem fræðslu- og símenntunarmiðstöðvarnar ásamt Háskólanum á Akureyri hafa komið sér saman um, til að tryggja að framkvæmd prófanna sé eins og best verður á kosið hverju sinni.
Farskólinn skilgreinir sig sem prófamiðstöð fyrir Norðurland vestra og allir nemendur í fjarnámi eru velkomnir til að taka sín próf. Á neðri myndinni til hægri má sjá fjölda prófa í námsverum undanfarin ár ásamt áætlun fyrir árið 2023.
Nemendur greiða 4.000 kr fyrir þessa þjónustu.
Verkefnastjóri með prófatökum er Jóhann Ingólfsson.