Fréttir úr starfinu – Háskólapróf – raunfærnimat

Nokkra fréttir úr starfinu í byrjun desember 2022. 

Háskólaprófin eru byrjuð. Háskólanemar í fjarnámi flykkjast nú i námsverin á Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd og Sauðárkróki til að læra og taka sín próf. Starfsfólk Farskólans situr yfir prófunum á Faxatorginu. Í fyrsta sinn í sögu Farskólans þarf nú að greiða fyrir það að taka próf. Hver prófataka kostar 4.000 kr og greiða nemendur fyrir fyrstu þrjú prófin á önninni en svo ekkert eftir þrjú próf. Farskólinn neyddist til að taka upp gjaldtöku eftir að framlög frá hinu opinbera til Farskólans voru nánast skorin af í þessum málaflokki.

Raunfærnimati fyrir starfsfólk sundlauga og íþróttamannvirkja í Skagafirði er lokið og tókst verkefnið vel. Hátíðleg útskrift er framundan og síðan verður boðið upp á raunfærnimat á Hvammstanga, Blönduósi og Skagaströnd eftir áramótin. Til að komast í raunfærnimatið þurfa þátttakendur að vera orðnir 23 ára og hafa unnið í sundlaug eða íþróttahúsi í þrjú ár hið minnsta. SÍMEY – símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar aðstoðar Farskólann í þessu verkefni meðal annars vegna þess að Farskólanum hefur ekki tekist að ráða til sín náms- og starfsráðgjafa en þeir eru lykilstarfsmenn þegar kemur að ráðgjöf og raunfærnimati.

Fyrir dyrum stendur gæðaúttekt á starfsemi Farskólans. Farskólinn starfar eftir svokölluð EQM gæðakerfi. Niðurstöður úr gæðamatinu ættu að hafa borist í hús fyrir áramótin.

Farskólinn býður ennþá upp á náms- og starfsráðgjöf svo ef einhverjir þurfa ráðgjöf þá er síminn í Farskólanum 455 6010. Eins má skrifa á farskolinn@farskolinn.is. Bæði náms- og starfsráðgjöf og raunfærnimat eru ókeypis fyri fullorðna.