Hann á afmæli í dag … Farskólinn er 30 ára í dag.

Farskólinn -miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra á afmæli í dag.

Þann  9. desember 1992 var stofnfundur Farskólans haldinn. Skólanum var ætlað að annast hvers konar fræðslustarf í kjördæminu … Starfsemi skólans skildi miðast við að auka starfshæfni og vellíðan, eins og sagði í stofnskránni, sem síðar hefur verið endurskoðuð. 

Stofnaðilar skólans voru: Fjölbrautaskólinn, héraðsnefndirnar þrjár, Siglufjarðarkaupstaður, Menningar- og fræðslusamband alþýðu og Iðnþróunarfélag Norðurlands vestra.

Gert var ráð fyrir að stofnanir, samtök launþega, atvinnurekenda og önnur félagasamtök gætu orðið aðilar að skólanum. Nú 30 árum síðar eru til dæmis stéttarfélögin á svæðinu ásamt sveitarfélögunum aðilar.

Í upphafi lagði Fjölbrautaskólinn hálft stöðugildi til skólans. Við lok ársins 2021 störfuðu fimm starfsmenn við skólann í fjóru og hálfu stöðugildi. Í dag eru starfsmenn þrír.

Verkefni Farskólans eru margvísleg. Megináherslan er á að kenna vottaðar námsleiðir Fræðslusjóðs (framhaldsfræðsla – sjá frae.is) eins og Grunnmennt, Skrifstofuskólann, Leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú, smiðjur og grunnnámskeið fyrir starfsfólk í fiskvinnslu, svo dæmi séu tekin. Einnig býður Farskólinn markhópnum upp á náms- og starfsráðgjöf og raunfærnimat og er sú þjónusta ókeypis.

Farskólinn býður upp á íslenskunám fyrir fólk af erlendu bergi brotið. Íslenskunámskeið hafa verið haldin á Hvammstanga, Blönduósi og Sauðárkróki undanfarin ár.

Farskólinn vinnur einnig fræðsluáætlanir og heldur utan um framkvæmd þeirra. Þar má nefna fyrir sveitarfélagið Skagafjörð og HSN – heilbrigðisstofnun Norðurlands í samstarfi við tvær aðrar fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar; SÍMEY og Þekkingarnet Þingeyinga.

Farskólinn hefur umsjón með háskólanámi á Norðurlandi vestra. Það er að segja hann hefur umsjón með prófatökum. Háskólapróf eru tekin í námsverunum á Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd og Sauðárkróki og námsverin standa háskólanemum opin allan ársins hring.

Fleiri verkefni mætti nefna eins og námskeið í samstarfi við stéttarfélögin, námskeið í samstarfi við Fjölmennt, tölvulæsi fyrir 60+, tómstundanámskeið og fleira.

Helsti markhópur Farskólans er fullorðið fólk sem ekki hefur lokið framhaldsskóla. Markhópur skólans  er auðvitað stærri eða allir fullorðnir á Norðurlandi vestra.

Næstu vikur og mánuði ætlar Farskólinn að stikla á stóru varðand sögu skólans; segja meðal annars frá aðkomu hins opinbera, helstu verkefnum og fleiru. 

Að lokum. Farskólinn hefur verið heppinn með starfsfólk og þar með talið kennara. Lykillinn að farsælu skólastarfi eru góðir kennarar eða leiðbeinendur eins og þeir eru stundum kallaðir innan fullorðins og framhaldsfræðslunnar. Þeir eiga allar þakkir skildar.

 

Myndin er frá útskrift úr Grunnmenntaskólanum á Siglufirði 2007.
Jarðlagnatæknar.
Nýútskrifaðir leikskólakennarar..