Ævintýra lærdómsferð til Eldrimner – matarhandverksskóla í Svíþjóð

Farskólinn hefur um nokkurt skeið boðið upp á námskeið í matarhandverki. Matarævintýrið hófst með tveimur smiðjum sem kallast ,,Beint frá býli”, sem haldnar voru í Skagafirði og í Húnavatnssýslum. Smiðjurnar koma frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og eru þær hluti af þeim námskeiðum sem markhópi framhalds/fullorðinsfræðslunnar standa til boða.

Verkleg kennsla námskeiða í matarhandverki hefur farið fram í Vörusmiðjunni á Skagaströnd, en þar er aðstaða góð til að halda verkleg námskeið af þessu tagi. 

Árið 2020 sótti Farskólinn um styrk til Erasmus+ til að fara og heimsækja Eldrimner, en Eldrimner er matarhandverksskóli í Svíþjóð. Vegna heimsfaraldurs covid þurfti að fresta ferðinni um nokkuð langan tíma en loksins, síðastliðið vor, fóru starfsmenn og leiðbeinendur námskeiðanna til Svíþjóðar, fimm talsins.

Ferðin var mjög lærdómsrík og nóg að skoða bæði innan skólans og í heimsóknum til smábænda í nágrenni skólans. Hópurinn sótti meðal annars námskeið í ostagerð.

Halldór B. Gunnlaugsson, verkefnastjóri námskeiða í matarhandverki fór fyrir hópnum og er hann þegar farinn að huga að næstu ferð.