Frá árinu 2013 hefur Farskólinn verið í afar skemmtilegu og farsælu samstarfi við stéttarfélög um fræðslu og án efa má finna dæmi um samstarf lengra aftur. Samstarfið árið 2013 hófst með því að Farskólinn hélt stök námskeið fyrir félagsmenn einstakra félaga og einnig á ákveðnum vinnustöðum. En fljótlega þróaðist samstarfið og haustið 2014 sameinuðu félögin Kjölur, Sameyki (þá SFR) og Samstaða krafta sína og buðu sameiginlega upp á námskeið fyrir sína félagsmenn. Fljótlega bættist Aldan við og síðan Verslunarmannafélag Skagafjarðar.
Á þeim tíma sem liðinn er hefur þetta samstarf um framboð á fræðslu aukist og styrkst. Vorið 2020 kom systurstofnun Farskólans á Eyjafjarðarsvæðinu, SÍMEY, inní samstarfið og þá bættist stéttarfélagið Eining Iðja, sem er nokkurs konar ,,Aldan/Samstaða” þeirra Eyfirðinga í hópinn. Frábær vítamínsprauta og hefur samstarfið verið afar farsælt.
Á þessum tíma hefur, eins og gefur að skilja, verið boðið uppá ýmislegt fróðlegt og skemmtilegt og fjöldi námskeiða farin að telja í hundruðum. Á meðfylgjandi mynd má sjá yfirlit yfir þau 10 námskeið sem í boði eru vorið 2022.
Við í Farskólanum erum afskaplega þakklát og ánægð með þetta frábæra samstarf og fylgjumst spennt með vexti þess og auknum styrk á næstu misserum.