Góð þátttaka á vefnámskeiðum vorannar

Núna á vorönn hafa Farskólinn – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra og SÍMEY sameiginlega staðið fyrir ellefu vefnámskeiðum. Í það heila sóttu 299 manns námskeiðin, þar af 138 á svæði Farskólans og 161 af svæði SÍMEY. Lengd námskeiðanna var frá einni og upp í sjö klukkustundir.

Námskeiðin voru haldin í samstarfi við stéttarfélögin Einingu Iðju, Kjöl – stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu, Sameyki – stéttarfélag í almannaþjónustu, Verslunarmannafélag Skagafjarðar, Ölduna stéttarfélag í Skagafirði og Stéttarfélagið Samstöðu í Húnavatnssýslum og fræðslusjóðina Landsmennt, Sjómennt, Sveitamennt og Ríkismennt. Námskeiðin voru liður í fræðsluátaki fræðslusjóðanna vegna Covid 19.

Halldór Gunnlaugsson, verkefnastjóri hjá Farskólanum, segir að á vordögum 2020, eftir að Covid-faraldurinn hófst, hafi símenntunarmiðstöðvarnar í auknum mæli farið inn á þá braut að mæta þörfum og óskum fólks með vefnámskeiðum. SÍMEY og Farskólinn hafi tekið höndum saman um að bjóða upp á slík námskeið og það samstarf hafi gengið mjög vel. Áfram hafi verið haldið á sömu braut á haustönn 2020 og aftur núna á vorönn 2021.

„Þetta fyrirkomulag á námskeiðahaldi kom mjög vel út. Vegna þess að við tókum sum námskeiðin upp gátu þeir sem af einhverjum ástæðum höfðu ekki tækifæri til þess að sitja námskeiðin sest við tölvuna og horft á upptökur af þeim. Samstarfið við stéttarfélögin og fræðslusjóðina var til fyrirmyndar og ég tel að allir hafi notið góðs af og fjármunirnir nýst mjög vel,“ segir Halldór og bætir við að framhald verði á þessu góða samstarfi SÍMEY og Farskólans. „Næsta skref er að skipuleggja fyrirkomulag námskeiða á haustönn 2021,“ segir Halldór.

Ingunn Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY, er mjög ánægð með hvernig til tókst. Aðsóknin hafi verið góð og þáttakendur almennt lýst ánægju með námskeiðin, sem voru fjölbreytt eins og eftirfarandi listi gefur til kynna:

Pottaplöntubarinn – Kennari: Auður Ottesen, garðyrkjufræðingur
Fjölæringa í blómabeðin – Kennari: S. Embla Heiðmarsdóttir, ráðgjafi í ræktun fjölærra plantna
Sálræn áföll – Kennari: Sigrún Sigurðardóttir, dósent við Háskólann á Akureyri
360 gráðu heilsa – Kennari: Rafn Franklín, þjálfari og heilsuráðgjafi
Skipulagið heima fyrir herbergi fyrir herbergi – Kennari: Virpi Jokinen, vottaður skipuleggjandi
Heimili og hönnun – Kennari: Emilía Borgþórsdóttir, iðnhönnuður og sjúkraþjálfari
Heilaheilsa og þjálfun hugans – Kennari: Ólína G. Viðarsdóttir, BA í sálfræði
 varða veginn fyrir þitt besta ár – Kennarar: Ingunn Helga Bjarnadóttir og Kristín Björk Gunnarsdóttir, markþjálfar
Breyttu áskorunum í tækifæri – Kennari: Ingvar Jónsson, markþjálfi
Takk fyrir, í orðsins fylltstu – Kennari: Kjartan Sigurðsson, markþjálfi

Jákvæð samskipti – Kennari: Pálmar Ragnarsson, fyrirlesari og körfuboltaþjálfari

Fréttin er tekin af heimasíðu SÍMEY. www.simey.is.