Hvað veistu um raunfærnimat?

Pistill í Námsvísi haustið 2021.

Nú er dásamlegt sumar að baki hjá okkur Norðlendingum og veturinn framundan. Við í Farskólanum stefnum á gott skólaár. 

Í fyrra fækkaði þátttakendum á námskeiðum verulega frá árinu á undan. Við teljum okkur vita ástæðuna fyrir því. Árið 2020 stunduðu 870 þátttakendur nám í Farskólanum og þar af voru konur 720 og karlar 150. Kenndar stundir voru 1.511 og nemendastundir voru 12.900. Það sem einkenndi námskeiðsárið voru vefnámskeiðin sem öll voru vel sótt. Allar upplýsingar um starfsemi Farskólans má nálgast í ársskýrslu á heimasíðu hans. 

Yfirstandandi ár hefur verið nokkuð rólegt en nú ætlum við að spýta í lófana og fara og hitta fólk og kynna starfsemina rækilega. Vissuð þið, til dæmis, að Farskólinn býður upp á ókeypis náms- og starfsráðgjöf? Eða hafið þið heyrt af raunfærnimati? Til að fá frekari upplýsingar um þessi verkefni okkar þá er best að heyra í ráðgjafa Farskólans í síma 455 – 6160. 

Markhópur Farskólans er fyrst og fremst fullorðið fólk sem ekki hefur lokið framhaldsskóla. Við leggjum mikla áherslu á að bjóða þessum hópi upp á nám, til dæmis í bóklegum greinum eða nám á leikskóla- og stuðningsfulltrúabrú. Annar mikilvægur hópur er fólk af erlendu bergi brotið. Hjá þessum hópi er gríðarlegur áhugi á að læra íslensku. Hlutverk okkar er líka að þjónusta atvinnulífið á svæðinu. Undanfarin ár hefur mikil gróska verið í námskeiðahaldi fyrir bændur á svæðinu og sér ekki fyrir endann á því. En við viljum gera betur, verða sýnilegri og bjóða fleirum þjónustu okkar. 

Verið með okkur í vetur.

Fyrir hönd Farskólans. Bryndís Þ.