Námskeið í matarhandverki í samstarfi við Vörusmiðjuna og SSNV

Frá haustinu 2018 hafa Farskólinn og Vörusmiðjan, með dyggum stuðningi SSNV, boðið upp á námskeið fyrir bændur, smáframleiðendur
og aðra áhugasama um matarhandverk.

Námskeiðin hafa verið fjölbreytt og hafa 24 mismunandi námskeið tengd matarhandverki og öðrum störfum bænda verið í boði. Sum námskeiðin hafa slegið í gegn, eins og námskeiðið ,,Úrbeining á kind”. Farskólinn hefur haldið níu slík námskeið á þessum tíma. 
Samtals hafa verið haldin á fimmta tug námskeiða sem yfir þrjú hundruð þátttakendur hafa sótt.

Þessi námskeið hafa verið haldin á haustin og hefur Farskólinn stílað á að halda þau á þeim tíma sem talinn var bestur fyrir bændur;  samhliða sláturtíð. Margar ábendingar og óskir hafa hins vegar komið frá viðskiptavinum Farskólans um að bjóða námskeiðin á tíma þar sem rólegra er hjá bændum. Því kalli er nú svarað með því að bjóða námskeið fyrir bændur VORIÐ 2022.