Pistill framkvæmdastjóra í Ársskýrslu 2022

Við þurfum að tala um Farskólann. Skólann, sem stofnaður var í desember árið 1992. Stofnaðilar skólans á þeim tíma voru Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, héraðsnefndirnar þrjár, Siglufjarðarkaupstaður, Menningar- og fræðslusamband alþýðu ásamt Iðnþróunarfélagi Norðurlands vestra.  Samkvæmt stofnskrá Farskólans sitja í stjórn fulltrúar frá stéttarfélögum, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Hólaskóla, sveitarfélögum og fyrirtækjum og stofnunum. 

Þann 1. júní 1993 var Ársæll Guðmundsson á Blönduósi ráðinn skipulagsstjóri við skólann og gert var ráð fyrir að Fjölbrautaskólinn legði Farskólanum til hálft stöðugild. Fyrsta námskeið hins nýstofnaða skóla var námskeið fyrir starfsfólk skólamötuneyta, samkvæmt frétt í vikublaðinu Feyki frá miðju ári 1993. Anna Kristín Gunnarsdóttir tók síðan við af Ársæli og undirrituð tók við keflinu árið 2003. 

Það væri áhugavert að taka saman helstu þætti starfseminnar þessi 30 ár sem skólinn hefur starfað. Breytingar hafa verið miklar frá stofnun hans. Í stað hálfs stöðugildis fóru stöðugildin í 4,5 þegar mest var en eru nú komin niður í þrjú. Verkefnastaða hvers tímabils ákveður það hversu margir starfa við skólann. Verktakar hafa verið margir og með margs konar menntun og sérfræðiþekkingu og nemendur Farskólans skipta þúsundum.  

Tölum einnig um markhópinn okkar. Hver er hann? Í dag tilheyra markhópnum fullorðnir einstaklingar sem ekki hafa lokið framhaldsskóla. Nýlega birtust af því fréttir að á Íslandi væri hæsta brottfall úr skólum í Evrópu, í aldurshópnum 18 – 24 ára, eða 16.5%. Það teljast ekki góðar fréttir. Þessar tölur þarf að skoða nánar með tillliti til aðstæðna hér á landi. Til dæmis þá er hér nóga atvinnu að hafa og margir freista þess að fara út á vinnumarkaðinn snemma með það í huga að fara aftur í nám síðar. Annan hóp þarf að nefna og það eru þeir sem hætta í skóla vegna námsörðugleika, til dæmis lesblindu. Á fullorðinsárum langar marga úr þessum hópi að fara aftur í nám, til að ná sér í réttindi, en þeir eru hræddir við einstaka námsgreinar eins og dönskuna. Í ársskýrslunni er vitnað stuttlega í Pétur Erlingsson sem kom til okkar í Farskólann til að læra. Hann lét ekki staðar numið þar heldur hélt áfram námi í Tækniskólanum og er enn að læra vorið 2023. Við eigum sem betur fer margar  sólskinssögur af þessu tagi. Ítarlegra viðtal mun birtast við Pétur í námsvísi haustannar. 

Nú er verið að endurskoða lög um framhaldsfræðsluna. Það hefur komið fram í tengslum við þá vinnu að hugsanlega verði markhópur framhaldsfræðslunnar útvíkkaður. Það er að segja að nýbúar og fólk með fötlun muni teljast til þess hóps, sem Farskólinn muni sinna í framtíðinni. Samkvæmt mælaborði Byggðastofnunar sem áður hefur verið vitnað til bjuggu 7.405 á Norðurlandi vestra 1. janúar 2022 og þar af voru þeir sem voru með erlent ríkisfang 699 eða 9,4%. Þessum hópi fólks, sem hingað hefur flust til að taka þátt í atvinnulífi okkar landsmanna, verður að standa til boða íslenskukennsla og helst ókeypis. Við þurfum öll sem samfélag að vera dugleg að tala íslensku við þennan hóp svo þau samlagist samfélagi okkar á sem stystum tíma. Þannig að það verður áfram þörf fyrir fræðslu- og símenntunarmiðstöð eins og Farskólans á komandi árum. 

Í Farskólanum er ekkert gefið, eins og sagt er. Verkefnin koma ekki til okkar.  Verkefnastjórar þurfa að fara út af örkinni og boða fagnaðarerindið; kynna nám og bjóða fólk velkomið inn í fullorðins- og framhaldsfræðsluna. Það þarf að sækja fólkið. Árið 2022 var að mörgu leyti erfitt hvað þetta varðar en ég leyfi mér að horfa björtum augum til framtíðarinnar. Með öflugum stuðningi stjórnar Farskólans trúi ég því að árið 2023 verði árið sem okkur tókst að snúa við blaðinu og nú liggi leiðin upp á við aftur eftir afleiðingar heimsfaraldurs. 

Stjórn Farskólans, starfsfólki, kennurum, samstarfsaðilum og síðast en ekki síst fólkinu, sem málin snúast um eða nemendum sjálfum, þakka ég gott samstarf  árið 2022. 

 Fyrir hönd stjórnar Farskólans. 

 Bryndís Kristín Williams Þráinsdóttir, framkvæmdastjóri.