Íslenskunámskeiðum vorannar lokið hjá Farskólanum

Íslenskunámskeiðum vorannar lokið

Haustið 2021 sótti Farskólinn um styrk til Rannís, til að kenna sex íslenskunámskeið árið 2022. Jóhann Ingólfsson, verkefnastjóri íslenskukennslunnar, sendi inn umsókn fyrir hönd Farskólans. Á vorönn var gerður samningur um fjármögnun námskeiða milli Rannís, fyrir hönd félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og Farskólans. Í samningi er gert ráð fyrir sex námskeiðum fyrir 60 þátttakendum árið 2022. 

Covid 19 setti mark sitt á allt námskeiðahald í Farskólanum og þar á meðal á íslenskuna. Sem dæmi má nefna að þá dróst námskeið á Hvammstanga langt fram yfir áramótin af þeim sökum. 

Blönduós – blandaður hópur

Á Blönduósi var haldið námskeið fyrir blandaðan getuhóp. Í upphafi voru þátttakendur sjö en einn heltist strax úr lestinni. Þátttakendur voru sex; fjórar konur og tveir karlar. Þátttakendur voru á aldrinum 23 til 56 ára. Meðalaldur var 37 ár. Allir þátttakendur áttu lögheimili á Blönduósi. Leiðbeinandi var: Lee Ann Maginnis.

Sauðárkrókur – íslenska 1. – Pólverjar

Hjá Farskólanum hefur staðið yfir átak til að ná sérstaklega til Pólverja búsetta á Sauðárkróki. Vegna Covid var ákveðið að bjóða upp á hálft námskeið í íslensku 1, á vorönn 2022 eða 30 kest. Þátttakendur voru sjö; tvær konur og fimm karlar.  Þátttakendur voru á aldrinum 22 til 29 ára. Meðalaldur var tæp 26 ár. Þátttakendur bjuggu á Sauðárkróki og Hofsósi. Leiðbeinandi var: Anna Katarzyna Szafranie

Sauðárkrókur – íslenska 3

Á Sauðárkróki var námskeið í íslensku 3 haldið. Þátttakendur voru sjö; fimm konur og tveir karlar.  Þátttakendur voru á aldrinum 23 til 58 ára. Meðalaldur var 35 ár. Þátttakendur bjuggu í Skagafirði; Sauðárkróki og sveitunum í kring. Leiðbeinandi var: Davíð Jóhannsson.

Sauðárkrókur – íslenska 2

Á Sauðárkróki var íslenskunámskeið 2 haldið. Í upphafi voru 10 þátttakendur skráðir til leiks. Sex þátttakendur luku námskeiðinu, fjórir karlar og tvær konur. Þátttakendur voru á aldrinum 24 til 42 ára. Meðalaldur var 34,5 ár. Þátttakendur komu víðs vegar að úr Skagafirði. Leiðbeinandi var: Sara Níelsdóttir.

Við hlökkum til að takast á við íslenskunámskeiðin næsta haust. Hjá Farskólanum er hafin vinna við að tengja íslenskunámskeiðin evrópska tungumálarammanum þannig að þátttakendur geti séð nákvæmlega hvar þeir eru staddir eftir hvert námskeið og geti tengt sig við tungumálarammann.