Háskólanemendur á Norðurlandi vestra – verið velkomnir í Námsverin á Norðurlandi vestra.
Frá árinu 2002 hefur Farskólinn ásamt sveitarfélögum á Norðurlandi vestra veitt háskólum á Íslandi þjónustu í formi aðstöðu fyrir fjarnemendur til náms og prófatöku. Frá þeim tíma hafa verið starfrækt námsver og námsstofur á fjórum stöðum á Norðurlandi vestra. Í námsverunum hafa háskólanemar ágætis aðstöðu til að stunda nám sitt, ef þeir kjósa svo og þar geta þeir tekið sín próf. Sjá nánari upplýsingar um þau hér:
Flestir háskólanemar í fjarnámi búa í Skagafirði. Árið 2022 voru tekin samtals 404 háskólapróf (258 háskólapróf árið 2021) í námsverunum. Ekki var haldin skráning yfir allar prófatökur á árinu. Sem dæmi um próf sem ekki voru skráð voru svokölluð heimapróf háskólanema sem ekki krefjast yfirsetu. Háskólaprófum fjölgaði um 43% frá árinu á undan. Flest próf voru tekin í Skagafirði eða 248.
Frá miðjum apríl og fram til loka maí og frá miðjum nóvember til miðs desember ár hvert koma háskólanemar í námsverin og taka sín próf. Þeir sem ekki teljast fjarnemar þurfa samþykki frá sínum skóla til að taka prófin á heimaslóðum og þurfa þeira að greiða ákveðið prófgjald. Frá árinu 2023 þurfa allir nemendur að greiða prófagjald fyrir próftökuna.
Miklar breytingar urðu á framkvæmd háskólaprófa árið 2020 í heimsfaraldi Covid og fjölgaði heimaprófum mjög. Rafrænum prófum í námsverum fjölgaði einnig mikið. Þrátt fyrir það þarf að skipuleggja yfirsetu. Ef próf eru tekin á gamla mátann; á pappír, þarf að sækja prófin inn á örugg rafræn svæði háskólanna, prenta þau út og leggja fyrir nemendur. Að loknum prófum eru úrlausnir skannaðar inn til tímabundinnar varðveislu og síðan eru þær sendar með landpósti til viðkomandi skóla. Ef háskólanemendur taka próf í tölvunni sinni, en í námsveri, er stuðst við forritið Inspera við prófatökuna. Nemendur sjá sjálfir um að koma forritinu fyrir í sínum tölvum. Yfirsetumaður tekur manntal og þarf síðan að fylgjast með þegar háskólanemi skráir sig úr prófinu og skanna nafna- og mætingalista til viðkomandi háskóla.
Háskólanemendur geta fengið lykla og komið í námsverin þegar þeim hentar til að læra. Á Sauðárkróki gera háskólanemendur sérstakan samning við Farskólann.
Verið velkomin í námsverin á Norðurlandi vestra.