Tölfræði úr ársskýrslu Farskólans vegna 2022.

Hér kemur stutt samantekt úr Ársskýrslu Farskólans um framkvæmd námskeiða árið 2022.

Árið 2022 voru haldin í Farskólanum  samanlagt 76 námskeið og fyrirlestrar af öllum stærðum og gerðum.  Námskeiðum og fyrirlestrum fækkaði á milli ára eða um sex námskeið. Ástæðuna má meðal annars rekja til heimsfaraldurs covid 19.    

Farskólinn leggur mesta áherslu á að bjóða upp á þjónustu og nám fyrir markhóp framhaldsfræðslunnar, til dæmis vottaðar námsleiðir FA, náms- og starfsráðgjöf og raunfærnimat. Einnig er áhersla lögð á að bjóða upp á nám sem tengist störfum fólks úti í atvinnulífinu og íslensku fyrir útlendinga, sem sest hafa að á Norðurlandi vestra. Starfstengd námskeið og fyrirlestrar voru samtals 76 árið 2022.

Flest námskeið voru haldin í sveitarfélaginu Skagafirði eða 24 námskeið (20 árið 2021). Í Húnaþingi vestra voru haldin fjögur námskeið (4 árið 2021), sex á Blönduósi (8 árið 2021) og sex á Skagaströnd (8 árið 2021). Árið 2022 voru haldin 34 vefnámskeið. Má þar meðal annars nefna Leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú, Færni í ferðaþjónustu, Grunnmennt og fjöldann allan af starfstengdum námskeiðum.  

Árið 2022 voru kennslustundir á nám­skeiðum og fyrirlestrum 1.557 (1.722 árið 2021). Hver kennslustund var 40 mínútur að lengd.

Árið 2022 voru nemendastundir 11.447 (13.909 árið 2021). Nemendastundum fækkaði um tæp 18% á milli ára. Nemendastundir eru fundnar með því að margfalda saman fjölda þátttakenda og fjölda kenndra stunda á hverju námskeiði fyrir sig og leggja tölurnar síðan saman.

Árið 2022 sóttu 707 nemendur (830 árið 2021) námskeið og fyrirlestra í Farskólanum. Námsmönnum fækkaði um 15% á milli ára. Fjöldi kvenna var 530 (647 árið 2021). Fjöldi karla var 177 (183 árið 2021).

Árið 2022 var meðalaldur námsmanna Farskólans 47 ár (44 ár árið 2021). Flestir námsmenn voru á aldrinum 59 ára (41 árs árið 2021). Elsti námsmaðurinn var 86 ára (86 ára árið 2021) og sá yngsti var 18 ára (16 ára 2021).