Stjórnarfundur var haldinn í Farskólanum 19. september. Farið var yfir stöðuna á verkefnum haustsins.
Námskeið í matarhandverki ganga vel og eru vel sótt. Námskeiðin eru haldin í samstarfi við vottaða Vörusmiðju BioPol á Skagaströnd. Námskeiðin falla vel að einu af markmiðum skólans, sem er að Farskólinn skuli greina þarfir fyrir fræðslu á þjónustusvæði sínu, bæði innan atvinnulífsins og hjá einstaklingum. Í þessu tilfelli, eða frá 2018, eru það bændur á Norðurlandi vestra sem sjónir skólans hafa beinst að. Námskeið í matarhandverki eru opin öllum og hægt að sérsníða þau fyrir hópa.
Íslenskunámskeiðin eru að fara af stað. Skráningar standa yfir.
Verið er að skipuleggja námskeið fyrir fólk með fötlun bæði í Húnabyggð og nágrenni og í Skagafirði. Þau verða komin af stað um miðjan október og standa fram að jólum.
Raunfærnimat í Fisktækni og fyrir starfsfólk íþróttahúsa og sundlauga fer fram nú á haustönn og komandi vorönn. Undirbúningur er í fullum gangi. Samstarfsaðili í raunfærnimatsverkefnum þetta haustið er SÍMEY- símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar.
Farskólinn verður 30 ára í desember. Árið 2023 verður því afmælisár skólans.
Þannig að það eru næg verkefni framundan með góðum stuðningi stjórnar og spennandi tímar.