Vottaðar námsleiðir Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem kenndar eru hjá Farskólanum haustið 2023

Námskeiðin fara af stað hvert af öðru hjá Farskólanum. Tvö stór fræðsluverkefni eru í gangi; Leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú með þátttakendum af öllu Norðurlandi vestra og Grunnmennt en þar er koma þátttakendur víðar að.

Nú stendur yfir kennsla í upplýsingatækni og stærðfræði 1 í Grunnmennt og framundan  er kennsla í íslensku og ensku. Verkefnastjóri Grunnmenntar er Jóhann Ingólfsson og hann veitir allar upplýsingar um námið. Síminn hjá Jóhanni er: 455 6011.

Námsleiðin Grunnmennt er haldin í nánu samstarfi við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Í Grunnmennt eru kenndir sömu áfangar og kenndir eru hjá FNV. Þannig reynir Farskólinn að tryggja að hans nemendur geti fengið sína áfanga metna inn í FNV ef og þegar þeir halda áfram námi þar. Flestir nemendur í Grunnmennt eru nú þegar helgarnemendur í iðngreinum við FNV, sem sækja nám í bóklegu greinunum hjá Farskólanum. Öllum nemendur hefur verið boðin náms- og starfsráðgjöf og hafa margir nýtt sér hana.

Kvikmyndasmiðja er í pípunum. Kvikmyndasmiðja verður kennd fjórar helgar. Halldór B. Gunnlaugsson er verkefnastjóri og nú standa yfir skráningar í smiðjuna. Halldór veitir allar upplýsingar í síma 455 6160.

Ofangreind verkefni eru öll fræðsluverkefni sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur hannað fyrir markhóp framhalds- og fullorðinsfræðslunnar og skrifað námskrár fyrir. Það er Fræðslusjóður sem styrkir vottaða námið sem Farskólinn býður upp á.